Ég sat um kvöld og horfði hátt
á himinsblámans djúp,
og augun drógust dræmt í kaf
í dimman næturhjúp.
Ég vildi horfa húmið burt
og heiðið bak við sjá.
Og ef til vill var augasteinn minn
óskasteinninn þá.
Ég vildi sigra sortans mátt
og sjá í gegnum hann,
því einhver þrá til æðra lífs
í æðum mínum brann.
Ég þráði meira, meira ljós
í mína veiku sál;
ég þráði glóð frá Guði sjálfum,
glóð sem væri ei tál.
Þá kviknaði allt í einu snöggt
á undralampans kveik.
Og sjá, hin björtu blysin Guðs
sér brugðu í fagran leik.
Þau þutu víða vegu geims
og vóðu blámans hyl,
og leifturhraðar litasveiflur
lýstu jarðar til.
Að lýsa þeirra Drottins dýrð
ei dauðleg tunga kann,
en helga nálægð himinsins
mitt hjarta þegar fann.
Og lúin sál mín lagðist þar
við lífsins bjarta ós,
og svalg á einu augnabliki
öll þau norðurljós.
Þá barnið hló í brjósti mér,
og birtan varð mín hlíf.
Ég heyrði Drottins hjarta slá,
þá hvarf mér dauði og líf.
Ég sá við undralampans ljós
á leifturhraðri ferð:
úr ótal slíkum augnablikum
eilífðin er gerð.